Fjarvinna eykur hamingjuna
“Ef starfsfólk fær val um hvenær það vinnur í fjarvinnu þá hefur það jákvæð áhrif á bæði heilsu og framleiðni”.
Við höfum flest lesið ótal greinar og skoðanir um fjarvinnu og stjórnandi Microsoft, Satya Nadella, heldur því fram að fjarvinna veiki félagsleg tengsl og minnki frumkvöðlahugsun starfsfólks. Vísindin eru samt að sýna okkur að fjarvinna geri starfsfólk í alvöru hamingjusamara, hraustara og jafnvel duglegra. Lykilatriðið virðist samt vera að starfsfólk þarf að upplifa að fjarvinna sé val en ekki skylda.
Rannsóknir hafa almennt verið að sýna að þó að fjarvinna sé ekki án áskorana þá bæti hún verulega jafnvægi vinnu og einkalífs. Þau sem vinna „frá sófanum heima“ græða ekki aðeins tíma með því að sleppa við að sitja föst í umferð heldur virðast þau fær um að nota þann tíma í það sem skiptir máli s.s. hreyfingu, fjölskylduna, heimilið eða áhugamál.
Annað sem breytist hjá þeim sem stunda fjarvinnu eru matarvenjur. Þau sem stunda fjarvinnu eru líklegri til að borða meira af ávöxtum, grænmeti og heimatilbúnum máltíðum í stað þess að borða samlokur eða kaupa dýrar tilbúnar máltíðir. Tekið skal fram að rannsóknin sem hér er vitnað til var gerð í Ástralíu og spurning hvort þar tíðkist ekki mötuneyti á vinnustöðum.
Mest sláandi við niðurstöður rannsóknarinnar er samt að þau sem stunda fjarvinnu græða auka 30 mínútur af hvíld á hverri nóttu. Fyrri rannsóknir hafa einmitt sýnt að það að vera í skrifstofu umhverfi hafi í för með sér vissa streitu sem getur haldið vöku fyrir okkur. Staðreyndin er sú að allt að einn af hverjum tveimur stjórnendum stríða við “sunnudags kvíða” (Sunday Scaries) sem er vinnutengdur kvíði sem heldur vöku fyrir þeim aðfararnætur mánudaga.
Á meðan þau sem stunda fjarvinnu eru ekki alveg laus við slíka streitu þá benda nýlegar rannsóknir til þess að það að minnka tíma í umferð og skrifstofu pólitík upplifi þau meiri orku og minni streitu.
Hvað með framleiðni vandann?
Margir stjórnendur nota framleiðni sem helstu ástæðuna fyrir því að þau krefjist staðvinnu.
Stjórnendur á borð við Elon Musk, Jamie Dimon (JPMorgan Chase) og Andy Jassy (Amazon) hafa talað hvað hæst um þann skort á nýsköpun (innovation) sem fjarvinna leiði af sér. En rannsókn Ástralanna komst að allt öðru eða því að fjarvinna hefði engin áhrif á framleiðni nema ef eitthvað var til hins betra.
Eins og alltaf þá eru tvær hliðar á peningnum og það virðist skipta máli að hafa val.
Rétt eins og það að vinna í staðvinnu getur verið frábært og ánægjuleg upplifun fyrir þá sem vilja vera þar þá jókst framleiðni, áhugahvöt og vellíðan þegar fjarvinna var möguleiki og persónulegt val en ekki skylda.
Nú eru komin fimm ár frá því að við þurftum flest að fara í fjarvinnu vegna heims faraldursins og við höfum fleiri og fleiri rannsóknir sem sýna að starfsfólki líður betur þegar þau fá að vinna að einhverju leyti í fjarvinnu og það bæti verulega jafnvægi vinnu og einkalífs. Þó að ekki sé öll vinna þess eðlis að hægt sé að bjóða upp á fjarvinnu þá sjá vonandi sem flestir vinnustaðir sem það geta sér fært að bjóða starfsfólki upp á val hvað fjarvinnu varðar. Verkefnin eru líka oft þess eðlis að sá fjarvinna getur hentað betur en staðvinna þó það sé alltaf gaman að hitta samstarfsfélagana.
Byggt á:
Orianna Rosa Royle, Fortune (2025). Scientists confirm what employees already know: Working from home really does make you happier. Orianna Rosa Royle. Sótt af: Fortune.com

