Haustið er mætt og rútínan verndar heilsuna

“Rútínur eru oft vanmetnar því þær gefa okkur mjög góðan grunn til að standa á í umróti daglegs lífs og auka vellíðan”

Rannsóknir sýna að rútína er eitt af lykilatriðunum fyrir góða líkamlega og andlega heilsu. Þegar við höfum stöðugleika í daglegum venjum getur það bætt svefn, dregið úr streitu og stutt við einbeitingu og vellíðan. Rútína virðist jafnvel geta stuðlað að betri heilsu almennt og meiri hamingju.

Á haustin eftir sumarfrí getur verið krefjandi að stilla líkamann og hugann (og börnin) aftur á vinnu, skóla og rútínu þar sem sumarfrí brýtur oft upp venjulegt dagskipulag. Þó að það sé stundum átak að koma okkur aftur á réttan kjöl þá er gott að hafa í huga að því fylgir líka vellíðunar tilfinning og ekki verra að vita hversu góð rútínan er fyrir heilsuna.

Eitt af því sem veldur okkur stundum streitu eru ákvarðanir og með því að hafa rútínur þá getum við fækkað hversdagslegum ákvörðunum á borð við hvort við eigum að fá okkur kaffibolla áður en við förum í sturtu eða öfugt. Með því að fækka þannig ákvörðunum sem þarf að taka fyrst á morgnana getum við lagt grunninn að betra upphafi á deginum. Því ef við erum með plan þá líður okkur eins og við séum við stjórnvölinn. Við erum þá búin að taka ákvarðanir fyrir fram og getum einbeitt okkur að þeim ákvörðunum sem ekki er hægt að plana fyrir.

Flest höfum við í gegnum árin komið okkur upp venjum varðandi svefn og máltíðir en kannski pæling að skoða hvort það séu fleiri þættir sem við getum komið í rútínu og þannig komið þeim út úr “ákvarðana ferli”.

Vantar þig rútínur?

Ef þú hefur ekki þegar komið þér upp rútínum eða þarft að endurræsa þær þá eru hér nokkrar hugmyndir:

  • Að fara að sofa á svipuðum tíma á hverjum degi – þetta styrkir svefnmynstur og bætir gæði svefnsins.

    • Að lesa eða hlusta á góða bók í nokkrar mínútur upp í rúmi getur endurstillt hugann og þannig losað okkur við “hugarjórtur” eða sem sagt það að lenda í að jórtra á atvikum dagsins í huganum.

  • Að vakna á svipuðum tíma alla daga - auðvitað er freistandi að sofa lengur um helgar en þá veldur það því að við erum að endurræsa rútínuna alla mánudaga sem getur tekið á. Í stað þess að sofa lengur um helgar getum við kannski leyft okkur að kúra aðeins lengur.

  • Að hafa stutta „ræsirútínu“ fyrir vinnudaginn – t.d. teygjur, djúpa öndun eða stuttan göngutúr, sem virkjar líkama og huga.

  • Að taka til fötin að kvöldi til - oft erum við í tímaþröng á morgnana og þurfum að sinna börnum og heimili og þá getur verið gott að vera búin að ákveða hverju við ætlum að klæðast.

  • Að taka morgunsturtu - þó að í dag sé verið að mæla með færri sturtuferðum en áður þá jafnast fátt á við hressandi morgunsturtu til að ná að vakna almennilega. Hvernig væri svo að prófa að stilla á kalt vatn í enda sturtunnar? Kalda gusan er sögð vera algjör heilsubót.

  • Að skipuleggja næsta dag í lok hvers vinnudags - það hjálpar til að skrifa lista yfir þau verkefni sem eru aðkallandi áður en haldið er heim á leið því þá náum við frekar að skilja vinnuna eftir í vinnunni. Svo má ekki gleyma að gera ráð fyrir hádegishléi til að ná að borða, hvílast og síðast en ekki síst að ná að tengjast samstarfsfólkinu því félagsleg samskipti í vinnu eru lykill að jákvæðri vinnustaðamenningu og geta dregið úr streitu.

  • Að koma hreyfingu inn í daglega lífið - ef við erum búin að ákveða hvernig og hvar við ætlum að hreyfa okkur er mun líklegra að það komist í rútínu. Hvort sem það er göngutúr, sundferð, hjólatúr eða ræktin þá er nauðsynlegt að ná a.m.k. 20 mínútum á dag. Svo má ekki gleyma að taka stigana sem rútínu.

Þegar við byggjum upp jákvæða rútínu erum við ekki aðeins að styrkja vellíðan okkar heldur einnig að auka framleiðni og ánægju í lífi og starfi.

Byggt að hluta til á:

  • Editorial contributors/Smitha Bandari (2024). Why Routines and Schedules May Be Good for Your Mental Health. Psychological Benefits of Routines. Sótt af: Webmd.com

  • World Health Organization. (2023). Stress. How can I manage stress?
    Sótt af: Who.int

Previous
Previous

Fjarvinna eykur hamingjuna