Hvað gerist þegar stjórnendur nota virka hlustun?
Eitt af lykilatriðunum sem leiðtogar dagsins í dag ættu að nýta sér sem mest er virk hlustun.
Virk hlustun er það þegar við hlustum af fullri athygli og án þess að dæma með það að markmiði að skilja hvað hinn aðilinn raunverulega meinar. Þegar við notum virka hlustun erum við í núinu og alls ekki að bíða bara eftir því að fá orðið. Við erum heldur ekki að horfa á tölvuskjá eða síma heldur höldum við góðu augnsambandi við viðmælandann. Virk hlustun felur það líka í sér að spegla það sem viðmælandinn segir með því að spyrja spurninga og endurtaka eða „súmmera“ t.d. með setningum á borð við „Ef ég skil þig rétt, þá ertu að segja að…?“ Svo er hægt að fylgja því eftir með því að spyrja t.d. „Hvernig get ég stutt þig sem best í þessu?“
Í virkri hlustun erum við heldur ekki að gefa ráð eða lausnir heldur spyrjum frekar viðmælandann hvaða lausnir hann/hún sjái fyrir sér. Markmiðið er að hinn aðilinn fá tilfinningu fyrir því að hann sé heyrður, skilinn og metinn og þannig skapast traust og betri samskipti.
Það stórkostlega við virka hlustun er að starfsfólk sem finnur að hlustað sé á það er líklegra til að geta nýtt rökræna hugsun og geta komið auga á lausnir sem þeim hefði kannski ekki annars dottið í hug. Bónus áhrif eru síðan þau að virk hlustun minnkar streitu hjá báðum aðilum; hjá stjórnandanum sem getur slakað á og slökkt á þörfinni til að leysa öll vandamál og starfsmanninum sem nær að einbeita sér mun betur og finna gleðina sem fylgir því að koma fram með raunhæfar lausnir. Það eru í alvörunni einhverjir töfrar sem eiga sér stað þegar við virkilega finnum að það sé einhver sem hlustar og langar að heyra hvað við höfum fram að færa.
Annað jákvætt sem virk hlustun og það að hvetja starfsfólk til að koma sjálft fram með lausnir hefur í för með sér er að starfsfólk upplifir aukið sjálfræði í starfi sem er mikilvægur þáttur í vellíðan í starfi.
Stjórnendur sem eru undir miklu álagi geta lent í því að finnast þau ekki hafa tíma til að nota virka hlustun þegar þau eru á kafi í einhverju verkefni og starfsmaður bankar upp á með vandamál. Þá er gott að hafa í huga að búið er að margsanna það að við getum ekki gert margt í einu og um leið og við lítum upp frá verkefninu er hugurinn kominn annað og við þurfum hvort sem er að hafa fyrir því að setja okkur aftur inni í verkefnið þegar samtalinu lýkur. Því er besta leiðin að fagna starfsmanninum og gefa honum/henni fulla athygli okkar enda er þá mun líklegra að viðkomandi finni lausn á vandanum og við höfum í raun fengið kærkomna hvíld frá skjánum auk þess sem við höfum ekki þurft að brjóta heilann til að finna lausn.
Á vinnustöðum þar sem stjórnendur nýta sér virka hlustun skapast jákvæð vinnustaðamenning þar sem fólk þorir að tala, treystir stjórnendum og vill leggja sitt af mörkum. Með öðrum orðum virk hlustun styður við sálfélagslegt öryggi á vinnustaðnum og þar með jákvæða vinnustaða menningu.

