Njóttu þín í starfi!

Í tilefni dags náms- og starfsráðgjafar langar mig að deila nokkrum vangaveltum um starfsþróun og benda á leiðir.

Hvað ef við hugsum starfsþróun eins og líkamsrækt?

Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju við erum svona dugleg að leita okkur aðstoðar þegar líkaminn eða hugurinn kallar á breytingar en ekki endilega þegar aðstæður í starfi gera það.

Við förum til einkaþjálfara þegar við viljum styrkja líkamann.
Við leitum til sálfræðings eða markþjálfa þegar við viljum vinna með hugsanir og líðan.
En þegar við finnum fyrir stöðnun eða leiða í starfi þá höldum við oft bara áfram eins og ekkert sé.

Kannski er það vegna þess að þegar okkur fer að leiðast í starfi þá tökum við það ekki alvarlega. Við förum að finna fyrir þreytu eða vanlíðan og streitan fer að hlaðast upp. Við teljum okkur trú um að þetta sé bara eitthvað tímabundið þegar það sem við erum í raun að finna fyrir er þörf fyrir aukinn áhuga, nýjar áskoranir eða breytingu á starfsvettvangi.

Ég held að ástæðan fyrir að við leitum ekki aðstoðar tengist því hvernig við hugsum um starf og sjálfsmynd. Við lærum að vinna vinnuna og skila góðu starfi – en ekki endilega að hugsa um vinnuna sem hluta af okkar eigin lífi, sem grunn að andlegri líðan og þroska.

Af hverju náms- og starfsráðgjöf?

Náms- og starfsráðgjöf snýst ekki aðeins um að velja skóla eða nýtt starf. 

Hún snýst um að hjálpa fólki að átta sig á sjálfu sér og koma auga á hvernig það getur vaxið og þroskast í starfi.

Með ráðgjöf gefst færi á að skoða hvað kveikir áhuga þinn, finna út hvar styrkleikarnir liggja og hvernig hægt er að skapa meira virði og tilgang í daglegu starfi. Með ráðgjöf getur þú skoðað hvernig þú getur stillt saman starfið þitt, draumana þína, fjölskylduaðstæður og lífið utan vinnu. Við verjum jú meirihluta dagsins í vinnunni – og það skiptir máli að hún næri okkur, en tæmi ekki.

Að leita ráðgjafar þarf ekki að vera neitt flókið. Stundum þarf bara eitt samtal eða smá grúsk til að kveikja nýja sýn – að sjá möguleika þar sem áður var vanafesta, eða smá sjálfsskoðun til að finna leið til að nýta krafta sína á annan og ánægjulegri hátt.

Hvert er hægt að leita?

Dagur náms- og starfsráðgjafar sem haldinn er 20. október ár hvert minnir okkur á að tækifærin eru allt í kringum okkur. Þegar við gefum okkur tíma til að huga að starfsþróun opnum við á að taka meðvitaða ákvörðun um að vaxa, læra og þróast. Þú þarft ekki að vera að glíma við vangetu eða vanlíðan til að leita þér aðstoðar – ekki frekar en þegar þú ferð í ræktina. Þig langar kannski bara að bæta stöðu þín eða finna áhugaverðari leiðir fyrir þig.

Að leita aðstoðar hjá náms- og starfsráðgjafa eða nýta sér verkfæri þeirra er merki um hugrekki, sjálfsstyrk og áhuga á eigin framtíð. Áhuga á að gera vel við sig og sína – því vellíðan í starfi hefur áhrif á allt líf okkar og fólkið í kringum okkur.

Ef þig langar að skoða möguleikana er hægt að leita úrræða og aðstoðar víða - Sjá t.a.m.:

Hvenær gafst þú þér síðast tíma til að staldra við og spyrja sjálfan þig spurninga ein og . . .

  • 💡 Hvert vil ég stefna næst?

  • 💡 Hvað kallar á mig núna?

Í dag er góður dagur til að spyrja spurninga, leita svara og huga að eigin starfsþróun. Taktu fyrsta skrefið.

- Þú átt það skilið! 


Next
Next

Framsýn forysta